Monday, September 8, 2008

Góða kvöldið!

Þá er fyrsti matarklúbburinn okkar á enda! Við mættum á slaginu 7 í „fælleshuset“ sem er samkomustaðurinn hér í húsaröðinni. Á boðstólnum voru kjúklingabringur, fylltar með pestói, tómötum og osti, hrísgrjón og karrýsósa. Í eftirrétt fengum við svo ekta danskar „æbleskiver“ sem hafa greinilega ekkert með epli að gera! Þetta var mjög notalegt og að sama skapi erfitt því það voru jú bara danir þarna sem voru að slúðra um helgina. Á dönsku. Við vorum nú samt ekkert útá túni, skildum alveg slatta sem er bara nokkuð gott!

Í dag lentum við nú í smá hasar. Áttum að borga leiguna í síðasta lagi í dag og tókum strætó niður í bæ stundvíslega kl. 3 og töldum okkur hafa nægan tíma. Fórum svo og tókum út pening og fórum inní bankann og þar kom í ljós að við (eða aðallega bókhaldarinn ég) höfðum gleymt reikningnum heima! Og nú voru góð ráð dýr! Ef við borgum leiguna eftir síðasta gjalddaga bætast 700 krónur ofan á leiguna sem er asskoti mikill peningur fyrir fátæka námsmenn í útlöndum. Bankinn lokaði kl. 4 og það tæki okkur að minnsta kosti tuttugu mínútur að fara aftur heim og annað eins að fara aftur niður í bæ! Klukkan var 15:20 og við röltum í örvæntingu okkar að næstu strætóstoppistöð og veltum því fyrir okkur hvort við ættum að panta leigubíl, það hefði í alvöru borgað sig! EEEn hvað haldiði að hafi þá gerst? Hvern sjáum við annan en strætó koma keyrandi, við tókum á sprett og náðum strætónum. Þegar við komum á endastöð hlupum við heim til okkar, náðum í reikninginn, settumst á hjólin okkar og hjóluðum og hjóluðum og hjóluðum. Vanalega tekur það hálftíma að hjóla niður í bæ en ég sver það, við tókum þetta á svona... korteri! Rifumst smá á leiðinni, ég nenni ekki að rifja það upp! Svo mættum við PUNGsveitt í bankann og náðum að borga leiguna! Hjúkket! Nutum þess svo að hjóla rólega aftur heim :) En við lærðum bara á þessu öllu saman og það sem við lærðum var:
· Vera vakandi fyrir því hvað þarf að taka með þegar farið er niður í bæ
· Borga leiguna eins fljótt og maður getur, ekki draga það fram á síðasta dag
· Vera góð við hvort annað og ekki rífast yfir smámunum :)

Það var heldur betur brjálað að gera hjá okkur um helgina. Á föstudaginn fórum við í partý í skólanum hans Baldurs, sem var ekkert spes, það kostaði 50 krónur inn (á mann) og það var ekkert í boði nema nokkrar saltstangir og dönsk tónlist (við erum þá að tala um Kim Larsen og Sjúbidua, ekkert rosalega spennandi). Enduðum í bænum, dansandi Grease-dansa með bekkjarfélögum Baldurs og það var bara ansi gaman. Daginn eftir var svo afmælisveisla hjá Katrine (kokkafélaga okkar Baldurs, sjá neðar) sem býr hér í nágrenninu. Við ætluðum okkur nú ekkert að fara en um klukkan 11 var dinglað hjá okkur og þá var fólkið úr partýinu mætt og skipuðu okkur að koma í partýið! Við létum undan og skemmtum okkur konunglega langt fram á nótt! Daginn eftir var ekki svo gaman, Baldur var „veikur“ allan daginn, aumingjans kallinn!

Baldur er nánast kominn á fullt í skólanum og kemur heim dag eftir dag með svip á andlitinu sem segir „sjitturinn, ég er í sjokki“. Hann verður meir a og meira var við það að það er meira en að segja það að vera í háskóla! Alvaran er sem sé að færast yfir hjá honum kallinum en ég veit að hann á eftir að rúlla þessu upp.

Á morgun fer ég í svo í stöðupróf í skólanum og ég verð að segja að ég er bara nokkuð spennt! En að sama skapi eilítið stressuð og þegar ég er stressuð gengur mér oft verr en mér ætti að ganga. Og vitandi það þá verð ég ennþá stressaðri.. plús það að mér líður núna eins og ég sé að veikjast og það er ekki nógu gott að vera lasin í svona prófi..! Ó guð, ég held ég hætti að blogga og fari að lesa orðabók eða eitthvað slíkt!!

Allavega, hugsið fallega til mín á morgun kl. 10:15 á staðartíma (8:15 á Íslandinu góða) plís og hafið það gott!!

p.s. ég og Baldur eigum ásamt Katrine nágranna að elda eftir 2 vikur og Katrine kom með þá uppástungu að við kæmum með uppskrift að einhverjum rosa góðum íslenskum rétti. Ekki viljum við neyða aumingjans Danina til að borða slátur (og ekki nenni ég að taka slátur, ó nei) eða svið eða hákarl. Þess vegna vil ég endilega biðja ykkur, elsku fjölskylda og vinir að endilega koma með hugmynd að einhverju sem gerir Danina æsta í að verða Íslendingar. Helst eitthvað sem tekur ekki 2 daga að elda og eitthvað sem gæti verið mjög svona, internasjonal, á bragðið. Takk takk :)

1 comment:

Kristin Lilja said...

Hahaha frábært blogg!

En já verið góð við hvort annað.. Hugsið ykkur hvað ykkar leigusaga er miklu skemmtilegri heldur en ef þið hefðuð bara rölt ósköp eðlilega í bankann með reikninginn og borgað hann...

Þið eruð æði og meiri dúllurnar! :) Sakna ykkar..