Já kæru lesendur það er Guðrún sem talar. Hér er allt fínt að frétta, allir kátir og frískir. Eða allavega helmingurinn af mannskapnum. Á föstudagskvöldið veiktist ég heiftarlega og var fárlasin á laugardaginn, Baldur vissi ekki hvað var á seyði! Var með óráði og þannig skemmtilegheit. Ég er þó að lagast núna, smá slappleiki en ekkert alvarlegt. Þannig að það varð ekkert af afmæliskvöldverðinum sem var áætlaður á laugardaginn. Því miður! En engu að síður átti Baldur nú afmæli á sunnudaginn, hann sleppti því ekkert.. varð 26 ára og aldrei verið sprækari! Hann fékk nú samt köku í tilefni dagsins. Hafði það svo bara notalegt, hékk í tölvunni og horfði á sjónvarpið. Ákváðum að fresta afmælis“veislunni“ þar til um næstu helgi.
Svo er bara allt á fullu í skólanum hjá okkur báðum. Förum héðan út kl. 8 og komum svo seint og síðar meir heim. Svo er það heimalærdómur, kvöldmatur, heimalærdómur og svefn. Þannig að líf okkar er ekki mjög fjölbreytt þessa dagana! Og þegar það er svona mikið að gera þá flýgur tíminn áfram og skyndilega er bara alveg að koma mars! Ég á ekki orð, jii!!
Heyrðu heyrðu svo um daginn kíktum við í póstkassann þegar við vorum nýkomin úr ræktinni og þar var sko miði sem á stóð að við ættum pakka frá Íslandi á pósthúsinu! Þá höfðu þeir komið með pakka en enginn var heima.. þannig að nú þurfum við að fara sjálf. Erum ekki enn búin að fara! Erum samt þvílíkt spennt að sjá hvað hann inniheldur. Vitum reyndar núna frá hverjum hann er, en í byrjun var þetta hálfgerður leyndardómspakki! Planið er að fara á morgun og ná í hann. Pósthúsið er lengst í burtu og það er enginn strætór sem gengur þangað þannig að það er algert vesen að fara þangað.. en maður leggur það á sig fyrir pakka :)
Nú styttist líka í það að ég fari í verklega námið, hvorki meira né minna en 2 og hálf vika í það! Ég verð að játa að ég er smá stressuð, en vonandi verður þetta bara gaman :) þetta er allavega svaka spennandi!
Annars er ekkert að frétta sko, Baldur er bara núna að horfa á fótboltaleik með strákunum einhvers staðar og ég var bara að klára uppvaskið.. þannig að það er allt með kyrrum kjörum :)
Vonandi hafið þið það sem best. Takk fyrir að lesa!
Kærar kveðjur,
Baldur og Guðrún