Thursday, November 27, 2008

Halló!

Hér í Álaborg er allt fínt. Nema veðrið, það er ógeðslegt. Rok og rigning og ískalt, hreint út sagt ógeð! Lífið gengur þrátt fyrir það sinn vanagang. Hjá mér var síðasti skóladagurinn í dag og á morgun er próf. Svo 10. desember verður munnlegt próf og þá er ég komin í jólafrí. Baldur er núna í þessum skrifuðu orðum að leggja lokahönd á verkefni fyrir skólann. Hann átti að hanna jólaskraut og jólakort. Svo á hann að skila á morgun og þarf örugglega að fara í skólann kl. 6 í fyrramálið til að prenta út og gera allt klárt fyrir skil. Svo verður hönnunin dæmd og vonandi vinnur okkar maður!


Helgin lítur mjög spennandi út. Annað kvöld er stefnan sett á að baka piparkökur hér á heimilinu. Á laugardaginn er stór dagur. Þá ætla ég og vinkonur mínar hér að skella okkur til Århus og fara hvorki meira né minna en í Ikea. Það verður nú gaman. Okkur vantar eitt og eitt hingað inn og því kemur þessi ferð sér vel. Stefnan er sett á að kaupa sjónvarpsborð og margt annað. Svo um kvöldið förum við Baldur í Julefrokost hér í Fælleshuset. Það verður spennandi að sjá hvernig alvöru danskur julefrokost er. Síld og Akvavit, get ekki sagt að ég sé mikið spennt fyrir því!


Í gær kom hingað gestur. Enginn annar en Gummi bróðir minn. Hann var í Århus að spila fótbolta og ákvað að kíkja á systur sína og mág í leiðinni. Hann og vinur hans, Gulli, komu hingað í hádeginu í gær og það var heldur betur glatt á hjalla. Kíktum í bæinn, röltum um og fórum á kaffihús. Það var ekkert smá gott að sjá kappann og þetta gerði okkur bara ennþá spenntari að koma heim. Í dag eru 24 dagar þar til við sjáumst á ný, elsku dúllur. Mikið verður gott að koma heim og hygge sig með ykkur :)


Ég get sko sagt ykkur það að við erum heldur betur dugleg í sparnaðinum. Notum til dæmis svo lítið rafmagn að við erum undir þeim kvóta sem reiknaður er á okkur. Sem þýðir það að við þurfum þennan mánuðinn bara að borga rúmar 300 krónur í staðinn fyrir 1200 krónur! Það kemur sér ekkert smá vel! Svo fáum við 450 krónur í húsaleigubætur þannig að leigan hjá okkur er komin í 2600 krónur á mánuði! Það er nú ansi billigt! Getum þá kannski í staðinn farið eitthvað pínku fínt út að borða í Köben þegar við förum þangað! Heldur betur lúxus á liðinu :)


Við lentum heldur betur í leiðindum áðan.Við vorum að fara í búð og Baldur ætlaði að millifæra pening (trúið mér, það er enginn barnaleikur). Hann var í miðri millifærslu og hvað haldiði að hafi gerst? Það komu skilaboð til hans „lokað hefur verið á notanda“ við héldum að við yrðum ekki eldri, áttum 100 krónur í lausu og áttum eftir að kaupa í matinn! Við urðum heldur betur pirruð, Baldur hamraði á lyklaborðið og ég varð heit í kinnum. En svo endaði þetta sem betur fer vel. Baldur hringdi bara í bankann og þessu var kippt í liðinn. Hjúkket! En ég var farin að sjá fyrir mér að við gætum ekki borgað leiguna og að við myndum enda á götunni!! Hehe svona getur stressið farið með mann :)


En jæja, það er ekki mikið meira að frétta hér. Erum bara að drepast, við hlökkum svo til að koma heim! Við söknum ykkar allra svo mikið og vonum að þið hafið það sem best. Ég vil minna ykkur á að vera dugleg að kommenta, það heldur í okkur lífinu að fá kveðjur að heiman :D hér fyrir neðan getið þið svo séð jólaskrautið sem Baldur var að hanna. já og svo settum við nýjar myndir á síðuna okkar: http://www.flickr.com/gudrunmagnusd


Kærlig hilsen,
Baldur og Guðrún

5 comments:

Anonymous said...

Hæ hæ elskurnar mínar,alltaf svo gaman að lesa bloggið ykkar,ég get varla beðið eftir því að fá ykkur heim :D klemm og knús til ykkar.

Anonymous said...

Töff kúla! Rosa flott :) En gott að heyra að það sé líka kalt hjá ykkur, það er alveg þvílíkt frost hérna..
Fór út áðan og hélt ég yrði bara úti, það er gnístandi hérna.

Hilsen Karen

Anonymous said...

Ég veit allavegana að ég myndi vera rosa ánægð að fá að hengja upp svona fínt jólaskraut heima hjá mér :D Ég elska ykkur dúllur :*

Anonymous said...

Já ekkert smá flott kúla! Ættuð að starta bissness. :)

Sakna ykkar dúllur, Björg

Kristin Lilja said...

Geggjað jólaskraut!! :)
En hey..nú fer að styttast í heimkomuna ykkar!!
:)
Farið vel með ykkur dúllurassgöt..

kv. Kristín