Tuesday, October 28, 2008

halló halló!

Það er nokkuð ljóst að rigningartíðin er byrjuð hér í Danmörkinni. Maður er gegnvotur allan daginn eftir að hafa hjólað í skólann og þar af leiðandi líka ískaldur. Ótrúlega kósí! Það er endalaus rigning hérna, um helgina var mest 30 millimetrar! Það er slatti. Það var þó ekkert slæmt fyrir okkur því við héngum inni alla helgina og höfðum það notalegt. Gerðum bara ekkert sérstakt um helgina. Gerðum þó misheppnaða tilraun til að kaupa föt á Baldur (hann er alveg fatalaus!). mættum galvösk í miðbæinn klukkan hálf þrjú með vasa fulla af krónum og vorum tilbúin til að versla. Komumst svo að því þegar við vorum nýbyrjuð að skoða í H&M að allt lokaði klukkan þrjú. Gaman að því. Þannig að Baldur litli verður að þola fataleysið eitthvað lengur!

Já hann Baldur er svo sannarlega að slá í gegn hérna í Danmörkinni. Vann aftur keppni í skólanum! Glæsilegt hjá honum, ég er ekkert smá stolt af honum. Og nú er hann byrjaður á öðru verkefni, þarf að hanna veggspjald fyrir PETA (dýrarverndunnarsamtök). Og ef hann vinnur þá keppni, verður hönnunin hans send í alþjóðlega keppni og veðlaunin þar eru... hvorki meira né minna en 2500 dollarar!! Óó já! Það er til mikils að vinna. Hehe :)

Um helgina er svo margt í boði. Íslendingaball og Halloweenpartý. Erum ekki alveg búin að ákveða hvort við ætlum að fara á Íslendingaballið, en við erum eiginlega búin að ákveða að fara í partýið. Kannski förum við bara í bæði!! En við þurfum að mæta í búningum í Halloween partýið og við erum sko búin að ræða það. Baldur ætlar að fara sem kona og ég ætla að fara sem karl! Þetta verður spennandi að sjá :)

Meira er ekki í fréttum að sinni. Hafið það sem allra best elsku vinir og vandamenn :)

Med venlig hilsen,
Baldur og Guðrún

Tuesday, October 21, 2008

Sæl og blessuð!

Jæja, þá er Sunneva farin aftur heim eftir langa og skemmtilega helgi. Reyndar var hún ekki ein því hún og Bjarni (besti vinur Baldurs) plönuðu surprise fyrir okkur og Bjarni kom líka. Tókum á móti Sunnevu í Aalborg Lufthavn kl. 17:00 og fórum með hana heim, borðuðum kvöldmat og spjölluðum. Svo vorum við að horfa á bíómynd þegar það var dinglað. Ansi sjaldgæft að það sé dinglað á þessum bæ þannig að ég var mjög hissa. Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu hissa og kát við vorum þegar ég opnaði hurðina og sá Bjarna standa fyrir utan! Við Baldur höfðum enga hugmynd um að hann væri að koma! Fyrir vikið varð þetta ennþá skemmtilegara. Þau komu á miðvikudaginn og fóru á sunnudaginn eftir rosalega vel heppnaða og skemmtilega helgi. Héldum kokteilboð á föstudagskvöldinu fyrir Íslendinga sem við þekkjum hér og svo á laugardaginn var Tour De Chambre sem heppnaðist rosa vel. Uðrum í 3. Sæti í flokknum „besta þemað“ og líka í 3. Sæti í flokknum „besti drykkurinn“ sem er bara ansi vel gert! Sunneva kom með rosalega mikið af gjöfum til okkar, fullt af íslensku sælgæti og fleiru. Þannig að það er bara veisla hér á bæ. Vorum farin að sakna þess frekar mikið en núna eigum við fullt! Takk fyrir okkur :)

Í gær vorum við Baldur svo bæði lasin (og Bjarni og Sunneva reyndar líka) vegna þreytu í alla staði. Baldur fór þó í skólann, þurfti að vinna í hópverkefni. Og í dag er ég líka lasin. Vonandi fer ég þó öll að koma til, vil helst ekki missa mikið úr skólanum þar sem það er einungis rúmlega mánuður eftir. Þá fer ég í próf og útskrifast vonandi með ágætis einkunn. Ég hef samt ekki mikla trú á því þar sem ég er langt á eftir bekkjarfélögum mínum í þessu öllu. En það kemur í ljós, ef ég næ ekki þá skiptir það svo sem engu máli fyrir mig, ég kemst hvort eð er inn í alla skóla, verandi Íslendinngur. En það væri gaman að vera með plagg uppá að hversu fær ég er í dönsku. Og talandi um það, ég kom sjálfri mér (og Baldri, Sunnevu og Bjarna) þvílíkt á óvart um helgina. Ég talaði dönsku við fólkið í Tour De Chambre og kann bara mun meira en ég hélt! Þannig að kannski ég bara nái prófinu :)

Svo erum við Baldur búin að kaupa ferð heim til Íslands. Kostaði hvorki meira né minna en 105.550 krónur! Þetta er svo mikið rugl! Svo erum við að heyra fréttir af því að flugfélagið sé að hætta við ferðir á fullu og erum núna þvílíkt stressuð yfir að þau hætti við okkar flug. Það bara má ekki gerast! En við munum mæta galvösk á klakann þann 23. Desember og yfirgefa ykkur 4. Janúar. Ekki langur tími en þó einhver tími. Við erum þakklát fyrir að fá einhvern tíma með fjölskyldu og vinum. Þannig að eins gott að það verði ekki hætt við flugið okkar!!

Annars er bara allt komið í fastar skorður eftir heimsóknina. Þurfum þó að borða súpu og túnfisk það sem eftir er af mánuðinum en það er ekkert nema okkur sjálfum að kenna. Og þó, við getum ekki millifært pening ennþá þannig að ég veit ekki hvernig það fer. Eigum sem betur fer pening í lausu fyrir leigunni þannig að það verður í lagi. En annað verður bara að koma í ljós. Vonandi endar þetta allt saman vel. Svo var ég að heyra að það væri kominn vöruskortur á Íslandi. Ég trúi ekki að þetta eigi að viðgangast lengur. Þetta verður að komast í lag!!!

Jæja, ég ætla að einbeita mér að því að ná mér úr veikindunum. Heyrumst síðar,
Guðrún og Baldur

p.s. Hér eru nokkrar myndir úr heimsókninni:


Gestirnir, Bjarni og Sunneva
















Fyrsta máltíðin saman















Sunneva að vatnslita íslenska fánann















Veisluborðið, harðfiskur, tópas og bolla og íslenski fáninn
















Galvaskir Íslendingar í lopapeysum og fótboltabúningum

Sunday, October 12, 2008

Góða kvöldið

Héðan úr Aalborg er allt gott að frétta. Eða svona miðað við aðstæður allavegana! Danske Bank búinn að loka á okkur og allt í skralli! Ástandið hlýtur þó að fara að batna, ég get ekki trúað því að þeir ætli að láta okkur (námsmenn erlendis) svelta og enda á götunni! En jæja, ég vona þó að allir á Íslandi hafi það gott og séu hraustir og séu ekki algerlega á tauginni.

Hvað haldiði að hafi gerst um daginn? Hjólið mitt bilaði! Og það er að sjálfsögðu hræðilegt hér í Danmörku. En að sjálfsögðu tók húsbóndinn á heimilinu málin í sínar hendur og lagaði það! Duglegur strákurinn! Og nú get ég hjólað og hjólað áhyggjulaus! Alger lúxus að eiga svona duglegan og flinkan kærasta!!

Fórum í gær í „kreppupartý“ heima hjá Bryndísi og Andra. Það var þannig að það var bannað að tala um kreppu og maður átti að skemmta sér. Það heppnaðist vel, allir voru kátir og hressir. Enduðum niðrí bæ, þó með stuttu stoppi í bakaríi þar sem feitir og sveittir bakarar voru að baka sætabrauð. Við betluðum snúða af þeim(sögðumst vera fátækir Íslendingar) og borguðum nokkrar krónur fyrir. Rosa gott :)

Svo er nota kósí hjá okkur í þessari viku. Núna eru allir skólarnir í „efterårsferie“ eða haustfríi. Getum bara slappað af endalaust og notið okkar! Reyndar verður brjálað að gera hjá okkur, Sunneva er að koma á miðvikudagin. Það verður náttúrulega ekkert nema stanslaust stuð og partý. Erum búin að bjóða fólki hingað í kokteilpartý á föstudaginn, það verður vafalaust svaka fjör.

Við höfum svo sem ekkert mikið að segja, vildum bara aðeins láta heyra í okkur.

Kær kveðja
Baldur og Guðrún

Sunday, October 5, 2008

Áskorun

Við fengum áskorun eftir síðasta blogg. Mörgum finnst hugmyndin um að stofna sjóðinn "börnin heim" bara ansi góð. Og áskorunin var sú að stofna hann í alvörunni. Sem við og gerðum. Þannig að ef það eru fleiri sem finnst þetta góð hugmynd og vilja leggja í púkk þá er þetta reikningsnúmerið:
0525-14-602655
og kennitala: 021087-2629
Við erum ekki að tala um hundraðþúsundkalla, heldur meira svona.. hundraðkalla :) En alls ekki finnast þið tilneydd til að styrkja okkur, aaalls ekki :) þetta er allt í góðu gert og það sem safnast mun koma sér vel þegar kemur að því að kaupa flugferð heim í jólafríið. Sama hversu lítið það verður, það er mikill munur fyrir okkur :)

Annars er allt fínt héðan, fórum út að borða á föstudaginn og það var mjög gott :) gaman að þurfa ekki að elda og vaska upp! Svo í gær átti að vera svaka Íslendingapartý en það var hætt við og það féll ekki í góðan jarðveg hjá okkur Baldri, vorum búin að klæða okkur upp og allt þegar við fengum afboðunarsímtalið :( En við gerðum bara hið besta úr því, höfðum bara kósíkvöld, drukkum smá bjór og horfðum á sjónvarpið. (að vísu ekkert rosalega frábrugðið ÖLLUM öðrum kvöldum hér, hehe)

Takk KÆRLEGA fyrir allar afmæliskveðjurnar :) Það var ekkert smá gott að fá þær allar, gaman að vita að ég er ekki gleymd og grafin!

Jæja, best að fara að vekja Baldur (já hann er sofandi kl. 19:04 að staðartíma!! alger letidagur í dag) og elda pizzu! Hafið það sem best elsku, elsku vinir og vandamenn.

kveðja,
Guðrún og Baldur

Thursday, October 2, 2008

Halló Halló!!

Héðan í Álaborg er allt við það sama. Allt gengur bara vel (fyrir utan það að þegar þetta er skrifað þá er danska krónan komin í 20,5) og allir eru hressir. Fengum reyndar einhvern smá skít síðasta föstudag, Baldur fór ekki í skólann og við fórum ekki á æfingu. En það var þó horfið daginn eftir og við skelltum okkur þá í partý.

Í gær var svo heldur betur hátíð í bæ. Þannig er mál með vexti að fótboltalið borgarinnar, AaB, var að keppa á móti engum öðrum en Manchester United! Og það í Álaborginni! Allan mánudaginn og allan þriðjudaginn var borgin skreytt í rauðu og hvítu (það eru litir AaB liðsins) og það var enginn smá mannfjöldi í bænum. Það komu fullt af Bretum í bæinn og auðvitað United liðið sjálft. Það var mannþröng fyrir utan hótelið þeirra þegar ég hjólaði þar framhjá á leið minni í skólann á þriðjudaginn. Allir að vonast til að koma auga á stjörnurnar. Svo á þriðjudagskvöldið var stóra stundin upprunnin. Þar sem það fengu mjög fáir miða á leikinn var slegið upp risaskjá á Gammeltorv og þar var sko heldur betur mannfjöldi. Allir rosalega íþróttamannslegir, drekkandi bjór og með rettu í munninum. En við létum það nú alveg vera, vorum nýkomin af BootCamp æfingu og fannst það heldur skrýtið að drekka bjór eftir átökin. En leikurinn endaði ekki vel fyrir AaB liðið, 3-0 fyrir United! Það voru ansi blendnar tilfinningar í gangi þegar við vorum að horfa á leikinn, Baldur er náttúrulega mikill United maður, en samt kunni hann ekki alveg við að fagna þegar þeir skoruðu! Ótrúlegt en satt þá var ég bara ansi stolt af AaB liðinu, þótt ég hafi einungis búið hér í tæplega 2 mánuði þá fannst mér eins og ég hefði verið stuðningsmaður alla mína ævi :)

Múgur og margmenni að horfa á leikinn

Við vorum að velta fyrir okkur að stofna sjóð, Börnin heim. Tilgangurinn með þeim sjóði er að koma börnunum (okkur) heim um jólin með því að fá styrki frá ýmsum. Nú er hart í ári og ansi erfitt að finna til pening til að eyða í flugfar, en það er vafalaust þannig hjá flestum þannig að ætli þessi sjóður falli ekki bara um sjálfan sig :) Við reddum okkur nú samt, þið munið vafalaust langflest, ef ekki öll, sjá okkur um jólin. Pælingin er að lenda á klakanum 23. Des og fara heim aftur 4. Jan þannig að við höfum alveg heila 12 daga til að trylla lýðinn á Íslandi! Það verður ekkert smá gott að sjá alla aftur og suma í fyrsta skiptið því Karen (systir Baldurs og vinkona Guðrúnar) á von á sér í desember! Við erum ekkert smá spennt að sjá litlu stelpuna :)

Annars er daglegt líf hér á Sigrid Undsets Vej er bara ansi ljúft. Baldur fer í skólann yfirleitt um 8, hjólar í skólann og er rosalega duglegur. Ég þarf að mæta hálf 1, get því kúrað til svona 10- hálf 11, sem er ansi ljúft. Svo komum við hérna heim um 4 og liggjum í tölvunum og bókunum, förum á bootcamp æfingu og eldum kvöldmat. Um helgar er það svo komið upp í vana að baka köku (því það er nammidagur ) og fara í partý. Svo reynum við (eða aðallega ég ;) ) að þrífa hérna og þvo þvott svona annað slagið. Þannig að á heildina litið lifum við ansi ljúfu lífi.

Danskur heimalærdómur



Baldur að lesa markaðsfræði


Hver sagði að á tveggja manna heimili væri lítið um þvott?


Baldur sveittur að horfa á Heroes á meðan ég brýt saman þvott og þríf klósettið


Framundan er svo bara afmæli á morgun, út að borða í því tilefni á föstudaginn, Íslendingapartý á laugardaginn og svo bara notalegheit. Svo eru í dag einungis 2 vikur í að Sunneva komi í heimsókn! Það er smá spenna í loftinu varðandi það :)

Ef einhver vill hringja í mig á morgun (og ég vona að það verði sem flestir :) ) þá ráðlegg ég ykkur að hringja ekki fyrr en eftir 19:00 (að íslenskum tíma) því það er skóli og bootcamp og svona. Já og símanúmerið er: 0045 21 55 83 18 :)

Jæja eigum við ekki að láta þetta gott heita í bili? Júúú :) en þó, eitt enn, við vorum að setja inn fullt af myndum og þær getið þið séð hér: http://www.flickr.com/photos/gudrunmagnusd/

Biðjum kærlega að heilsa öllum heima og hafið það sem allra best í kreppunni
Baldur og Guðrún.