Thursday, November 27, 2008

Halló!

Hér í Álaborg er allt fínt. Nema veðrið, það er ógeðslegt. Rok og rigning og ískalt, hreint út sagt ógeð! Lífið gengur þrátt fyrir það sinn vanagang. Hjá mér var síðasti skóladagurinn í dag og á morgun er próf. Svo 10. desember verður munnlegt próf og þá er ég komin í jólafrí. Baldur er núna í þessum skrifuðu orðum að leggja lokahönd á verkefni fyrir skólann. Hann átti að hanna jólaskraut og jólakort. Svo á hann að skila á morgun og þarf örugglega að fara í skólann kl. 6 í fyrramálið til að prenta út og gera allt klárt fyrir skil. Svo verður hönnunin dæmd og vonandi vinnur okkar maður!


Helgin lítur mjög spennandi út. Annað kvöld er stefnan sett á að baka piparkökur hér á heimilinu. Á laugardaginn er stór dagur. Þá ætla ég og vinkonur mínar hér að skella okkur til Århus og fara hvorki meira né minna en í Ikea. Það verður nú gaman. Okkur vantar eitt og eitt hingað inn og því kemur þessi ferð sér vel. Stefnan er sett á að kaupa sjónvarpsborð og margt annað. Svo um kvöldið förum við Baldur í Julefrokost hér í Fælleshuset. Það verður spennandi að sjá hvernig alvöru danskur julefrokost er. Síld og Akvavit, get ekki sagt að ég sé mikið spennt fyrir því!


Í gær kom hingað gestur. Enginn annar en Gummi bróðir minn. Hann var í Århus að spila fótbolta og ákvað að kíkja á systur sína og mág í leiðinni. Hann og vinur hans, Gulli, komu hingað í hádeginu í gær og það var heldur betur glatt á hjalla. Kíktum í bæinn, röltum um og fórum á kaffihús. Það var ekkert smá gott að sjá kappann og þetta gerði okkur bara ennþá spenntari að koma heim. Í dag eru 24 dagar þar til við sjáumst á ný, elsku dúllur. Mikið verður gott að koma heim og hygge sig með ykkur :)


Ég get sko sagt ykkur það að við erum heldur betur dugleg í sparnaðinum. Notum til dæmis svo lítið rafmagn að við erum undir þeim kvóta sem reiknaður er á okkur. Sem þýðir það að við þurfum þennan mánuðinn bara að borga rúmar 300 krónur í staðinn fyrir 1200 krónur! Það kemur sér ekkert smá vel! Svo fáum við 450 krónur í húsaleigubætur þannig að leigan hjá okkur er komin í 2600 krónur á mánuði! Það er nú ansi billigt! Getum þá kannski í staðinn farið eitthvað pínku fínt út að borða í Köben þegar við förum þangað! Heldur betur lúxus á liðinu :)


Við lentum heldur betur í leiðindum áðan.Við vorum að fara í búð og Baldur ætlaði að millifæra pening (trúið mér, það er enginn barnaleikur). Hann var í miðri millifærslu og hvað haldiði að hafi gerst? Það komu skilaboð til hans „lokað hefur verið á notanda“ við héldum að við yrðum ekki eldri, áttum 100 krónur í lausu og áttum eftir að kaupa í matinn! Við urðum heldur betur pirruð, Baldur hamraði á lyklaborðið og ég varð heit í kinnum. En svo endaði þetta sem betur fer vel. Baldur hringdi bara í bankann og þessu var kippt í liðinn. Hjúkket! En ég var farin að sjá fyrir mér að við gætum ekki borgað leiguna og að við myndum enda á götunni!! Hehe svona getur stressið farið með mann :)


En jæja, það er ekki mikið meira að frétta hér. Erum bara að drepast, við hlökkum svo til að koma heim! Við söknum ykkar allra svo mikið og vonum að þið hafið það sem best. Ég vil minna ykkur á að vera dugleg að kommenta, það heldur í okkur lífinu að fá kveðjur að heiman :D hér fyrir neðan getið þið svo séð jólaskrautið sem Baldur var að hanna. já og svo settum við nýjar myndir á síðuna okkar: http://www.flickr.com/gudrunmagnusd


Kærlig hilsen,
Baldur og Guðrún

Wednesday, November 19, 2008

Hej!

Já gott fólk, hér sit ég á sófanum og skrifa á meðan Baldur reynir að búa til teknólag. Fórum á æfingar í dag og erum lurkum lamin eftir þær. Baldur er hættur í Bootcamp vegna hnévesenis og er búinn að kaupa sér kort í ræktina. Þar pumpar hann járni eins og enginn sé morgundagurinn. Ég hins vegar held ótrauð áfram í Bootcamp, við Sara erum búnar að bæta við einni æfingu þannig að núna er það 4 sinnum í viku. Á mánudögum hlaupum við smá og syndum svo slatta, á þriðjudögum og fimmtudögum er venjuleg bootcamp æfing og á föstudögum er svo hlaupaæfing. Breyttum reyndar til í dag og höfðum hlaupaæfingu í dag og ég get sko sagt ykkur það án þess að ljúga að ég hljóp stanslaust í klukkutíma í dag! Og eitt annað sem er ekki lygi: ég get varla labbað núna! Ég er alveg dauðþreytt í fótunum! En það er magnað að fara í sund hérna. Í fyrsta lagi er sundlaugin ísköld. Í öðru lagi gilda engar umferðarreglur þar þannig að maður gæti allt eins lent í því að skalla einhvern. Í þriðja lagi er BANNAÐ að vera í sundfötum undir sturtunni. Það er ansi magnað. Skrýtið þetta lið hér í Álaborg.

Ég er búin með 1/3 af prófunum og það gekk bara vel í þessum fyrsta parti sem var lesskilningur. Svo á ég eftir að fara í hlustunarpróf og munnlegt próf. Það verður spennandi að sjá :) Baldur er bara í kæruleysi í skólanum, nánast í fríi í 2 vikur því hann er að vinna að einstaklingsverkefni núna og þar af leiðandi þarf hann eiginlega ekkert að mæta í skólann.

Veðrið hérna þessa dagana er heldur ógeðslegt, endalaus rigning og rok. Minnir mann bara á Ísland :) það er nánast ekkert hægt að hjóla í þessu roki, maður kemst ekkert áfram, þannig að við erum búin að lifa í munaði núna annað slagið og höfum tekið strætó í skólann! Alger lúxus!!

Um síðustu helgi fórum við m.a. í keilu. Það var hresst, Baldur vann tvisvar, kallinn helvíti góður. Svo spiluðum við Trivial ótal sinnum við vini okkar hér, Bryndísi, Andra, Barböru, Kidda og Halldóru. Fínt að hita smá upp fyrir jólin :)

Já svo styttist og styttist í heimkomuna. Aðeins 33 dagar! Það verður nú fljótt að líða. Við erum ekkert smá spennt og hlakkar ekkert smá til að hitta alla aftur :) við söknum ykkar svo svakalega mikið! Bíðum líka spennt eftir að fá fréttir af því að Karen systir Baldurs sé búin að eiga. Hún ætti að fara að unga út bráðum :) það verður spennandi!

Annars erum við bara bæði hress og kát, heilsan góð og geðheilsan líka. Okkur líkar enn tiltölulega vel vi ðhvort annað, sofum allavega enn í sama rúmi. Hehe neinei nú er ég að grínast, við erum svaka hamingjusöm :)

Jæja það er kannski þjóðráð fyrir mig að fara að kíkja í koju, komin í einhvern galsa hér! Hafið það sem best dúllur og ekki gleyma að kommenta :)

Med venilg hilsen,
Baldur og Guðrún

Wednesday, November 12, 2008

Halló!

Jæja þá er komin tími á nýja færslu. Hálf kjánalegt að hafa þessar misgóðu myndir hér fremst á síðunni! Það er svo sem ekkert mikið að frétta héðan, allt gengur vel og við höfum það gott. Ótrúlegt hvað tíminn flýgur áfram, allt í einu kominn 12. Nóvember! Það er ekkert smá, mér finnst svo stutt síðan við fluttum! Og nú fer bara bráðum að koma að því að við komum í frí til Íslands, bara í næsta mánuði :)

Gerðum okkur smá dagamun um daginn, fórum út að borða og í bíó. Sáum nýjustu James Bond myndina og við mælum með henni :) mælum líka með veitingastaðnum sem við fórum á, svaka fínn og alls ekki dýr. Fengum 2 rétta máltíð fyrir 109 krónur! Svaka fínt. Svo á síðasta föstudag var svokallaður „j-dag“ hérna í Danmörku. Þar sem Danir eru, eins og við öll vitum, mikið fyrir bjórinn þá var þessi dagur (eða reyndar kvöldið) haldið hátíðlegt og komu jólabjórsins fagnað! Eða með öðrum orðum Danir duttu í‘ða. Og við líka! Julebryg frá Tuborg er ekkert smá góður bjór, ef þið kíkið til Danmerkur í kringum jól þá mæli ég með því að þið prufið hann. Helst á krana, hann er bestur þannig.

Svo eru bara próf framundan og eintóm gleði. En ég held ég láti þetta nægja að sinni, uppvaskið bíður :) svo vildi ég minna ykkur á að vera dugleg að kommenta, eitthvað búið að minnka hjá ykkur. Alltaf gaman að fá komment :) Hafið það sem allra, allra best og munið: sjáumst í næsta mánuði ;)

Med venilg hilsen,
Baldur og Guðrún

Wednesday, November 5, 2008

God aften!

Hér sitjum við og horfum á danskt kosningasjónvarp. Danirnir eru að missa sig yfir forsetakosningunum í Bandaríkjunum, eru með svaka þætti í hverjum fréttatíma um þetta og alles. Þetta er spennandi, við höldum bæði með Obama.

Annars er allt fínt héðan. Bara ískalt en fallegt veður. Jólaskreytingarnar eru farnar að láta sjá sig og það eru endalaus jólatilboð í öllum búðum. Við vorum nú að vonast til að De Danske væru nú aðeins rólegri í þessum bransa heldur en Íslendingarnir en svo er víst ekki.
Helgin var hress, fórum í Halloween partý hér í húsinu hjá okkur og dressuðum okkur heldur betur upp. Baldur fór sem kona og ég sem karl. Svo seinna um kvöldið fórum við á Íslendingaball og Baldur sló heldur betur í gegn þar. Það voru allltaf einhverjir karlar að klípa í rassinn á honum og hann fékk ansi margar spurningar varðandi kynhneigð sína. En þetta fór þó allt vel og það var vel sjúskað og sköllótt kvenmannsandlit á karlmannslíkama sem vaknaði við hliðina á mér morguninn eftir. Núna veit Baldur þó hvernig það er að vera stelpa, þurfa að mála sig og þola áreyti frá strákum, hehe :)
Prófin hjá mér nálgast óðfluga, einungis ein og hálf vika þar til það fyrsta verður. Kellingarnar í skólanum (sem eru búnar að búa hér í 2-3 ár og búnar að vera álíka lengi í skólanum) eru alveg að missa sig í stressi og eru alveg handvissar um að þær falli, en á meðan er ég pollróleg. Annað hvort geri ég mér ekki grein fyrir alvarleikanum eða þá að þær eru að taka þessu of alvarlega. Það skiptir þær reyndar öllu máli að ná því annars komast þær ekki inní háskólann en ég er komin inn og er þar að auki Íslendingur og þarf ekki að hafa neitt dönskupróf. Ég tek þessu bara með ró og geri mitt besta, hvernig sem fer þá hefur þetta verið fín reynsla :)
Baldur er bara í einhverju kæruleysi þessa vikuna í skólanum. í gær og í dag voru bara „project hours“ sem þýðir að hópurinn hans ákveður hvenær skal hittast og hvað skal gera. Svo á morgun og á föstudaginn er frí. Einasti skóladagurinn hans verður á fimmtudaginn. Það er greinilega lúxuslíf að vera í háskóla, ég hlakka bara til að byrja! Hahaha.. :)
Á morgun ætlum við að fara í verslunarferð (í tilefni þess hvað við erum rík) og kaupa hlaupaskó á Baldur. Hann er búinn að vera að drepast í hnjánum og nú erum við komin að þeirri niðurstöðu að skórnir hans séu ekki nógu góðir. Hann hefur þurft að taka sér frí frá æfingum og hann er nú ekki kátur með það. Við breyttum samt til í gær og í stað þess að hlaupa og djöflast fórum við í sund og djöfluðumst. Baldur synti eitthvað um 1 kílómeter á meðan viðSara hlupum smá og syntum 500 metra. Svo skelltum við okkur í gufu og ísbað. Þetta er svaka fín sundlaug en það er ekkert smá skrýtið bragð af vatninu. Og það eru engar umferðareglur á sundbrautunum. Mjög spes :)
Hafið það sem allra best elsku dúllur.

Med venlig hilsen,
Baldur og Guðrún

p.s. nokkrar hressar myndir af okkur í draginu:

Baldur svaka fínn í kjól og sokkabuxum